Húskveðja úr Öræfum. (Fengin að láni). 2022.
 
Hurð. Úr Vöruhúsinu við Blesaklett. 2022.
 
Uppreisn. Viður úr Vöruhúsinu við Blesaklett. 2022.
 
Orgel. (Fengið að láni). 2022.
 
Fjórtán brotabrot frá árunum 1954-1967. Silkiþrykk. Ryð og eggjarauða á vigtarseðla K.S. 2022.
 
Fjórtán brot. Risoprent. 2022.
 
 
Sýningarskrá, póstsend til íbúa í Sveitarfélaginu Hornafirði. Maí 2022
Sýningarstjóri: Snæbjörn Brynjarsson
Grafískur hönnuður: Tim Junge
 

Hugleiðing að lokinni sýningu

Iðjan - andardráttur samofinn sögu. Hvernig verður líf að landi og land að lífi? Hvernig skapast takturinn sem stýrir hjartslættinum?

Það að kveðja hús getur verið tækifæri til þess að opna gluggann. Skoða húsið, söguna og okkur sjálf sem erum runnin saman við húsið. Eins og hvert annað kennileiti í landslaginu, hefur þetta hús staðið án þess að bæra á sér frá því að ég man eftir mér. Það að kveðja hús getur verið tækifæri til þess að staldra við og baka pönnukökur >>> viðrun.

Kveikjan að sýningarheitinu og gegnumgangandi þemanu er aulafyndni.  Mér fannst umhugsunarvert að taka þetta viðkvæma hugtak, húskveðjuna, úr samhengi og skoða það betur. Það gaf mér líka tækifæri til þess að rýna betur í þessa gömlu hefð, hringja símtöl og velta vöngum. Hugsa um þetta hús og starfssemina þar, sem ég laumaðist um þegar ég var barn, sjá hana hverfa sjónum ofan í ryk - á vissan hátt eins og þegar árið kveður í sjónvarpinu um áramótin og minnkar og minnkar og minnkar og hverfur á endanum á skjánum. Bæ, bæ; og saga hússins veifar á móti.

Fyrirbærið húskveðja er tengt útförinni og dauðanum en á sama tíma svo nátengt náttúrunni sem við erum sjálf. Það að deyja þýðir í raun nýtt upphaf ef við hugsum um öll þau næringarefni sem myndast í jarðveginum þegar lífrænt efni brotnar niður, ný hlutverk, kaflaskil. Það að minnast sögunnar og staldra við, færir söguna uppá yfirborðið og hjálpar okkur að setja hana í samhengi við lífið og sjálfsmynd okkar. Í raun er húskveðjan hér í Svavarsafni fyrir mér upphafning á eilífri hringrás, birtingarmynd upphafs og endi, einskonar viðkomustaður í gönguferð.

Það sem drífur mig áfram er það að tilheyra, finna einhverskonar samhljóm með því umhverfi sem ég hef tekið mér bústað í. Skilja eða skynja það, kafa ofan í og snúa því við og skoða rangaborðið. Svo er náttúruvernd undirrót að þessu öllu, að hægja á og taka tíma í að gera hlutina í staðin fyrir að leysa allt með tilbúnum lausnum, sem oftar en ekki er byggt á hugviti sem við erum aftengd og setjum því tæplega í samhengi við umhverfi okkar. Ég gat ekki hugsað mér að byggja nýtt hús með öll þessi hús hér í kringum mig - mér fannst það líka svo hrikalega óspennandi og óyfirstíganlega mikill efniviður sem ég hefði aldrei tök á að vita uppruna á sem myndi hrúgast yfir mig með því móti. Og í raun tengi ég lítið við söguna í sagnfræðilegum skilningi því línuleg saga fer á margan hátt í taugarnar á mér, hún er aldrei nema örlítið brot af því sem gerðist, bundin þröngu sjónarhorni þess sem segir. En mér finnst gott að umvefja mig sögunni á óræðan hátt og leifa henni að gefa mér vísbendingar sem hefja ímyndunaraflið á flug og planta þáttum úr henni inní mína vitund sem ég og geri þá að mínu.

Í vissum skilningi er ég að tala um hraða og tempó sem talar inn í hnattrænt samhengi. Það skiptir mig litlu máli hvað ég hef fyrir stafni - svo framarlega sem ég hef eitthvað fyrir stafni og fæ að ákveða stefnuna hverju sinni. Þegar við ákváðum að taka við þessum húsum hér þá fylgdi því einhverskonar ró og fullvissa um að héðan í frá myndi mér aldrei leiðast… auðvitað leiðist mér svo oft að horfa á allt þetta ryðgaða bárujárn, en það felast tækifæri í því, kannski fyrst og fremst tækifæri til þess að eyða lífsorkunni og dansa, búa til spurningar og vangaveltur í kringum þesskonar lífstíl.

Tilraunir mínar ganga því annarsvegar út á það að finna þessum efniviði einhvern farveg og hinsvegar skoða heildræna upplifun sem fæst með því að staldra við, ganga um, hlusta, nærast, fylgjast með breytingum, fá tilfinningu fyrir breytingum og tækifæri til þess að hittast og tala saman. Færast þannig nær nágrönnums sínum - öllum steinunum hér í kring.

Örfáar sögulegar átyllur mega fylgja hér með: Vöruhúsið við Blesaklett, eða Gamlabúðin eins og húsið hefur verið nefnt síðan búðin flutti upp fyrir hamrana á Fagurhólsmýri, var byggt á árunum 1953 til 1954. Búðin opnaði 1954 og var rekin undir merkjum Kaupfélags Skaftfellinga til áramótanna 1964-65. Þá gengu Öræfingar í Kaupfélag Austur Skaftafellssýslu. Búðin var rekin í Vöruhúsinu til ársins 1967, en 3. nóvember það ár opnaði kaupfélagið við þjóðveginn fyrir ofan hamra í húsnæði sem í dag hýsir starfssemi Cafe Vatnajökuls.

Vöruhúsið við Blesaklett var annað húsið í Öræfum sem hýsti verslun. Fyrsta búðin var staðsett við Salthöfða, þar sem stutt var til sjávar á meðan vörurnar bárust sjóleiðis. Þegar flugið hófst árið 1948 var Vöruhúsið á óheppilegum stað úti við Salthöfða. Eins var Vöruhúsið við Blesaklett óheppilega staðsett þegar akfært var orðið austur á Höfn og vörur bárust orðið eingöngu landleiðina. Það var árið 1967.

Júní 2022, Eva BJ

 

Þakkir: 
Auður Hildur Hákonardóttir 
Birgitta Karen Sveinsdóttir
Einar Bjartur Egilsson
Elín Gunnlaugsdóttir
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir 
Guðný Svavarsdóttir
Guðmundur Óli Sigurgeirsson 
Gunnlaugur Bjarnason
Hafdís Sigrún Roysdóttir
Loise Pajot
María Sól Ingólfsdóttir
Ófeigur Sigurðsson
Ragnheiður Sigurðardóttir Bjarnarson
Sigrún Hrólfsdóttir
Sigrún Sigurgeirsdóttir
Skrýmir Árnason
Snæbjörn Brynjarsson 
Steinunn Björg Ólafsdóttir
Tim Junge